Smelltu hér til að sækja Silverlight
 

Allar fréttir

Listi yfir allar fréttir frá Microsoft Íslandi.

 • Microsoft og Tölvumiðlun gera samstarfssamning

  21. nóvember 2011

  Microsoft og Tölvmiðlun hafa gert með sér samning um þróunarsamstarf sem er stærsti samningur sinnar tegundar sem Microsoft hefur gert við íslenskt hugbúnaðarhús.

  Samstarf fyrirtækjanna var kynnt á ráðstefnu Tölvumiðlunar í Hörpu 18. nóvember 2011.

  Samstarfssamningur þessi hefur verið á annað ár í vinnslu og hefur Tölvumiðlun notið aðstoðar starfsfólks Microsoft Íslandi við þá yfirgripsmiklu grunnvinnu sem nauðsynleg var til þess að gera samninginn að veruleika.

  Grunnforsenda samningsins er að samstarfið skili hugbúnaði sem verður ríkari af virkni, með framtíðarhagsmuni notenda að leiðarljósi.

  Um árabil hefur Tölvumiðlun notað þróunartól frá ýmsum birgjum til hugbúnaðargerðar auk gagnagrunna frá Oracle og íhluta frá öðrum birgjum, en með samningi félaganna nú, verður H3 heildarlausn í mannauðsmálum frá Tölvumiðlun flutt yfir á Microsoft SQL Server og mun Tölvumiðlun í kjölfarið reiða sig meira en áður á Microsoft lausnir við hugbúnaðargerð félagsins.

  Á sama tíma hafa félögin samið við færustu gagngrunnssérfræðinga bandaríska upplýsingatæknifyrirtækisins DB-Best technologies, sem hafa verið fengnir til að hafa yfirumsjón með flutningi kerfanna yfir á Microsoft SQL.

  Í samstarfi Microsoft og Tölvumiðlunar felast miklir möguleikar á útflutningi H3 lausnarinnar sem þróuð er hérlendis, en þess má geta að um árabil hefur launavinnsla Microsoft Íslandi verið framkvæmd í H3 launakerfi Tölvumiðlunar.

  Að sögn stjórnenda Tölvumiðlunar er það mikil lyftistöng fyrir félagið og heiður að Microsoft skuli velja Tölvumiðlun til samstarfs, en í samningnum felst viðurkenning Microsoft á þróunarstarfi Tölvumiðlunar og gæðum þeirra lausna sem félagið býður hérlendis.

  Um Tölvumiðlun
  Tölvumiðlun er stofnað árið 1985 og hefur sérhæft sig í þróun hugbúnaðar og þjónustu við rekstraraðila hérlendis á sviði launavinnslu og mannauðsmála auk sérlausna. Hjá Tölvumiðlun starfar samhentur hópur sérfræðinga, sem þjónustar mörg hundruð ánægða notendur H3 heildarlausnar í mannauðsmálum, SFS fjárhagskerfisins auk annarra hugbúnaðarkerfa.

  Um Microsoft
  Microsoft var stofnað árið 1975 og er í dag einn stærsti framleiðandi að hugbúnaðarlausnum í heiminum. Fyrirtækið leggur áherslu á almennar hugbúnaðarlausnir, þjónustu og lausnir sem gera venjulegu fólki og fyrirtækjum kleift að vinna vinnuna sína á auðveldan og skilvirkan hátt.

  Um Microsoft Íslandi
  Microsoft Íslandi ehf., var stofnað árið 2003 og er að fullu í eigu Microsoft corporation. Hjá fyrirtækinu starfa 14 starfsmenn sem sinna öllum helstu verksviðum starfsemi Microsoft.

  Nánari upplýsingar veitir:
  Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, í síma 840 6902

 • Maritech heiðrað sem „Samstarfsaðili ársins 2011“ hjá Microsoft Íslandi

  4. júlí 2011

  Maritech tilkynnir með stolti að fyrirtækið hefur hlotið verðlaunin „Samstarfsaðili ársins 2011“ hjá Microsoft Íslandi. Verðlaunin eru veitt þeim sem taldir eru hafa skarað fram úr í þróun og kynningu á Microsoft-tengdum lausnum síðasta ár. Fyrirtækið var heiðrað ásamt fleiri samstarfsaðilum Microsoft á heimsvísu, fyrir yfirburði í þróun og útfærslu á þjónustumiðuðum lausnum byggðum á tækni frá Microsoft.

  „Okkur er mikil ánægja að tilkynna að Maritech hefur verið valið „Samstarfsaðili ársins 2011 hjá Microsoft Íslandi“,“ sagði Jon Roskill, varaforseti Worldwide Partner Group hjá Microsoft. „Maritech hefur sýnt afburðaþjónustu við viðskiptavini sína og traust samvinna er kjarni okkar samstarfs.“

  Verðlaun voru veitt í ýmsum flokkum og sigurvegarar valdir úr hópi fleiri en 3000 samstarfsaðila frá öllum heimshornum. Maritech þótti hafa skarað fram úr í lausnum og þjónustu auk þess að eiga í áhrifaríku samstarfi við Microsoft Íslandi og halda í heiðri nýsköpun, viðskiptaáhrifum, þjónustu við viðskiptavini og því að laða að nýja viðskiptavini.

  „Það er mikill heiður að hljóta þessi verðlaun annað árið í röð. Ég trúi því að lykillinn að árangri og vexti Maritech sé sú mikla áhersla sem lögð hefur verið á lausnir fyrir sjávarútveginn, sveitarfélög og viðskiptagreind, en Maritech hefur hefur lagt mikla vinnu í þróun á þessum sviðum. Sterk markaðsstaða Maritech hvílir á því að við getum útvegað viðskiptavinum okkar samþætta þjónustu sem byggir á þeim afurðum Microsoft sem uppfylla allar kröfur þeirra,“ segir Jón Heiðar Pálsson, sviðsstjóri sölu- og markaðssviðs Maritech.

  Maritech er sjálfstæður söluaðili Microsoft Dynamics NAV og er að auki Microsoft Gold Certified Partner og Samstarfsaðili ársins 2010. Maritech var stofnað árið 1995 og er einn stærsti söluaðili Microsoft Dynamics NAV á Íslandi. Maritech býður fjölbreyttar viðskiptalausnir fyrir alþjóðlegan markað. Hjá Maritech starfar metnaðarfullur hópur starfsfólks og fyrirtækið þjónustar um 500 viðskiptavini um allan heim.

  Maritech hefur þróað fjölda sérkerfa sem eru samhæfð lausnum Microsoft Dynamics NAV. Helst má nefna lausnir sem kallast WiseDynamics og innihalda breitt svið lausna m.a. fyrir sjávarútveginn, ásamt öflugum greiningartólum á sviði viðskiptagreindar sem nýtast stjórnendum vel til að hafa góða yfirsýn yfir reksturinn. Velgengni Maritech byggir á heildstæðri þekkingu og reynslu af NAV.

  Nánari upplýsingar veitir:
  Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, í síma 840 6902

 • Íslensk þýðing á Office 2010 - Ókeypis fyrir notendur Office 2010

  28. janúar 2011

  Íslensk þýðing á Office 2010 skrifstofuhugbúnaðinum kemur út í dag og geta þeir sem þegar eiga Office 2010 nálgast hana sér að kostnaðarlausu á vefnum microsoft.is. Office 2010 kom út á alþjóðavettvangi á fyrri hluta síðasta árs og er íslenska þýðingin án efa kærkomin fyrir þá sem hafa vanist að nota íslenskar þýðingar Office-pakkans í gegnum tíðina og m.a. nýtt sér íslenska stafsetningarorðabók sem fylgir með þýðingunni. Með útgáfu íslenskrar þýðingar Office 2010 nú eru nánast allar helstu hugbúnaðarlausnir Microsoft fáanlegar á íslensku.

  Áratugur er nú liðinn frá því fyrsta íslenska þýðing Microsoft-hugbúnaðar var boðin hér á landi. Það var þýðing á stýrikerfinu Windows 98. Síðan þá hefur Microsoft þýtt flestar útgáfur Windows-stýrikerfisins, Office-skrifstofuhugbúnaðarins og helstu viðskiptalausna sinna á borð við Microsoft Dynamics NAV og AX, auk Windows Exchange-samskiptabúnaðarins og netþjónalausna. Á næstunni verður bætt við íslenskri þýðingu á Windows Live, sem inniheldur m.a. Hotmail-póstþjónustuna og MSN-spjallkerfið.

  Í rannsókn sem Capacent Gallup hefur nýlega gert fyrir Microsoft Íslandi kemur fram að notkun á íslenskri þýðingu á Windows stýrikerfinu hefur aukist nokkuð í tölvum á vinnustöðum landsmanna á síðastliðnum tveimur árum. Árið 2008 var sams konar könnun gerð og sýnir samanburður milli kannananna að notkun íslenskunnar í stýrikerfum á vinnustöðum hefur farið úr 16% í 23% á þessu tímabili. Notkun íslenskrar útgáfu Windows á heimilum eykst lítillega, úr 22% í 23% en notkun íslenskrar þýðingar Windows-stýrikerfisins í skólum minnkar hins vegar milli mælinga, fer úr 16% í tæplega 12%.

  Það vekur nokkra athygli hversu aftarlega á merinni skólar virðast vera í að nota íslenska þýðingu á stýrikerfum sínum og að notkunin virðist minnka frekar en aukast. Hafa ber þó í huga að þeir sem svöruðu könnuninni voru eldri en 16 ára og því segir könnunin ekki til um notkun íslensku í grunnskólum.

  Þetta er sérstaklega athyglisvert í ljósi þess að íslensk rannsókn hefur bent til þess að notkun íslensku við tölvunotkun auki sjálfsöryggi nemenda og skilning þeirra á tölvunotkun. Einnig kemur fram í rannsókninni að svo virðist sem nemendur skóla, sem nota íslenska þýðingu, noti íslensk orð um tölvunotkun í meira mæli en nemendur skóla sem notuðu enska útgáfu.

  „Þetta er mikilvægur áfangi í viðleitni okkar á að bjóða sem stærstan hluta hugbúnaðarlausna Microsoft á íslensku. Þannig viljum við leggja okkar af mörkum við að halda íslenskunni á lofti sem lifandi máli við leik og störf. Það er ánægjulegt að sjá að notkun íslenskunnar í Windows aukist á vinnustöðum, en við erum hugsi yfir því að svo virðist sem skólar sem fólk yfir grunnskólaaldri sækir hafi ekki áhuga á að hafa tölvuumhverfi sitt á íslensku. Vonandi er ástandið betra í grunnskólunum, enda er það hluti af íslenskri málstefnu, sem samþykkt var á Alþingi 2009, að allt notendaumhverfi í leik-, grunn- og framhaldsskólum yrði á íslensku árið 2012. Rökin yfir því að bjóða ekki íslenskt notendaumhverfi eru engin, því þýðingin kostar ekkert, rannsóknir sýna að íslenskunotkunin eflir tölvukunnáttu barna og unglinga og þeir sem vilja nota enskt umhverfi geta skipt um tungumála á nokkrum sekúndum. Þar að auki býður íslenskunotkunin ýmsa aukamöguleika eins og í Office 2010 þar sem stafsetningarorðabók fylgir með þýðingunni,“ segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi.

  Nánari upplýsingar veitir:
  Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, í síma 840 6902

 • Ókeypis hugbúnaður og þjónusta sem tengja saman tölvuna og „skýið“

  25. júní 2010

  Microsoft hefur gefið út prufuútgáfu af Windows Live Essentials-hugbúnaðarpakkanum. Það er ókeypis hugbúnaður sem gerir það einfaldara fyrir almenning að búa til og dreifa myndum og myndskeiðum, skipuleggja tölvupóst og halda sambandi við vini. Meðal helstu nýjunga eru búnaður sem greinir andlit í ljósmyndum og merkir þá sem eru á myndunum, háskerpu-myndspjall og endurbætt klippiforrit sem gerir myndbandagerðina auðveldari en nokkru sinni fyrr.

  Windows Live Essentials er hannað til að fá það besta út úr samvinnunni milli einkatölvunnar og „skýsins“, þ.e. gagnageymslu og tölvuvinnslu sem hýst er á fjarlægum netþjónum. Þannig er notendum gert einfalt að deila efni á borð við ljósmyndir og vídeómyndir með milligöngu skýsins og tengslavefja á borð við Facebook, Flickr og Youtube. Prufuútgáfa Windows Live Essentials, svokölluð „beta-útgáfa“, er gefin út nú þegar hugbúnaðurinn er kominn langt í þróunarferlinu og er tilgangurinn að gera almenningi kleift að nýta sér kosti búnaðarins strax, auk þess sem Microsoft safnar athugasemdum og öðrum tækniupplýsingum til að sníða síðustu agnúana af hugbúnaðinum. Lokaútgáfa verður svo gefin út innan nokkurra mánaða og verður hún einnig í boði ókeypis fyrir notendur.

  Meðal forrita í Windows Live Essentials-pakkanum eru Photo Gallery, Movie Maker, Sync, Messenger, Mail, Writer og Family Safety. Meðal stærstu nýjunga í þessari nýjustu útgáfu má nefna að Messenger-spjallforritið býður nú upp á háskerpu-myndspjall auk meiri tengingar við samfélagsvefi. Photo Gallery ljósmyndaforritið er nú með endurbætt myndvinnslutól á borð við Photo Fuse, sem gerir notendum kleift að taka bestu hlutana úr mörgum svipuðum myndum og sameina þá í eina fullkomna mynd. Einnig skartar forritið nú andlitsgreiningartóli, sem getur sjálfkrafa merkt hvaða manneskjur eru á hverri ljósmynd. Með forritinu Movie Maker er nú einfaldara en áður að klippa saman myndskeið og ljósmyndir og skila fullbúnu myndbandi með tónlist og texta á örfáum mínútum. Mail-tölvupóstforritið er nú með alla helstu eiginleika fullbúins samskipta- og skipulagningarforrits og hið nýja Sync gerir notendum kleift að samstilla möppur og skrár milli margra tölva, bæði PC-tölva og Makka, þannig að ef skrá er breytt á einni tölvu breytist hún sjálfkrafa á hinum tölvunum einnig.Meðal annarra nýjunga í Office 2010 eru innbyggð myndvinnslutól í Word og PowerPoint, sem gera notendum kleift að sníða til myndir sem settar eru inn í skjölin. Með nýjum eiginleika í PowerPoint má nú á einfaldan hátt „senda út“ glærukynningu í gegnum netið, þannig að sá sem flytur kynninguna þarf ekki að vera staddur á sama stað og áhorfendurnir. Umtalsverðar endurbætur á Outlook-samskiptaforritinu gera umsýslu með tölvupóst einfaldari auk þess sem hægt er að tengja það við vinsælar samfélagsvefsíður.

  Windows Live Essentials virkar með stýrikerfunum Windows Vista og Windows 7. Hægt er að sækja hina nýju prufuútgáfu ókeypis á slóðinni http://explore.live.com/windows-live-essentials-beta.

  Nánari upplýsingar veitir:
  Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, í síma 840 6902

 • Fjöldi nýjunga kynntur í Office 2010

  16. júní 2010

  Microsoft hefur gefið út nýjustu útgáfu Office-skrifstofuhugbúnaðarins, Microsoft Office 2010. Þar með er komin út ný kynslóð algengustu skrifstofuforrita sem notuð eru í heiminum; forrita á borð við ritvinnsluforritið Word, töflureikninn Excel, glæruforritið PowerPoint og samskiptaforritið Outlook, svo nokkur séu nefnd.

  Meðal helstu nýjunga í þessari útgáfu Office er áhersla Microsoft á að forritin, og vinna við þau, sé ekki einungis bundin við þá tölvu sem þau eru sett upp á, heldur nýtist Office ekki síður á farsímum og öðrum smátólum og virki jafnframt í netvöfrum. Þannig má með Office Web Apps, sem er alger nýjung í Office 2010, opna, vinna með Word, Excel, Powerpoint og One Note skjöl óháð því hvort Office 2010 sé uppsett á viðkomandi tölvu eða ekki. Aðgangur að Office Web Apps er án endurgjalds – það eina sem þarf er ókeypis skráning hjá þjónustunni Windows Live.

  Meðal annarra nýjunga í Office 2010 eru innbyggð myndvinnslutól í Word og PowerPoint, sem gera notendum kleift að sníða til myndir sem settar eru inn í skjölin. Með nýjum eiginleika í PowerPoint má nú á einfaldan hátt „senda út“ glærukynningu í gegnum netið, þannig að sá sem flytur kynninguna þarf ekki að vera staddur á sama stað og áhorfendurnir. Umtalsverðar endurbætur á Outlook-samskiptaforritinu gera umsýslu með tölvupóst einfaldari auk þess sem hægt er að tengja það við vinsælar samfélagsvefsíður.

  Microsoft hefur lagt mikla áherslu á að þróa hugbúnaðinn í samvinnu við viðskiptavini og notendur til að hann taki sem mest mið af óskum og þörfum þeirra sem nota hann daglega. Yfir níu milljónir notenda um heim allan tóku þátt í Beta-prófunum Office 2010 og hópvinnulausninni SharePoint 2010, sem eru þrefalt fleiri notendur en tóku þátt í sambærilegum prófunum á Office 2007 á sínum tíma.

  „Þetta eru spennandi tímar fyrir Microsoft, því það er ekki langt síðan við gáfum út nýtt stýrikerfi, Windows 7, sem hlaut einstaklega góðar viðtökur. Sama hugmyndafræðin var notuð við þróun Office 2010 og því erum við þess fullviss að notendur munu einnig taka Windows 2010 opnum örmum. Það sem mér finnst áhugaverðast við þessa útgáfu er að með henni sér almenningur sennilega í fyrsta skipti í verki áherslu Microsoft á að lausnirnar okkar nýtist til fullnustu á þremur mismunandi skjáum: Á tölvunni, í símanum eða smátækinu og í netvafranum. Um leið sýnir Office Web Apps hvernig Microsoft er farið að veita þjónustu í gegnum tölvuský í auknum mæli – og það er þróun sem er bara rétt að byrja,“ segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi.

  Hinn nýi Office-pakki er eins og fyrri útgáfur hannaður bæði með heimilis- og fyrirtækjanotkun í huga og geta notendur valið um nokkrar samsetningar eftir þörfum sínum. Microsoft Office 2010 fæst hjá fjölmörgum söluaðilum Microsoft-hugbúnaðar um land allt.

  Allar nánari upplýsingar um Office 2010 má finna á Office vefnum okkar.

  Nánari upplýsingar veitir:
  Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, í síma 840 6902

 • Fyrirtæki fá aðgang að Office 2010

  14. maí 2010

  Microsoft hefur nú gefið fyrirtækjum aðgang að nýjustu útgáfu Office-skrifstofuhugbúnaðarins, Microsoft Office 2010. Um leið hefur fyrirtækið gefið út nýja útgáfu af hópvinnukerfi sínu, SharePoint 2010. Þessar lausnir eru sérhannaðar til að auka framleiðni og hagkvæmni, t.d. með því að auka notkunarmöguleika þeirra á Netinu og í farsímum.

  Þar með er komin út ný kynslóð algengustu skrifstofuforrita sem notuð eru í heiminum; forrita á borð við ritvinnsluforritið Word, töflureikninn Excel, glæruforritið PowerPoint og samskiptaforritið Outlook, svo nokkur séu nefnd. Með þessari nýjustu útgáfu heldur Microsoft áfram þróun nýrra notendaskila Office-forritanna, en fyrirtækið gerði umfangsmiklar breytingar á þeim með síðustu útgáfu, Office 2007.

  Microsoft hefur lagt mikla áherslu á að þróa hugbúnaðinn í samvinnu við viðskiptavini og notendur. Til marks um það má nefna að þrefalt fleiri notendur tóku þátt í Beta-prófunum Office 2010 og SharePoint 2010 heldur en sambærilegum prófunum á Office 2007. Það gerir það jafnframt að verkum að nú þegar nota 8,6 milljónir manna um heim allan Office 2010.

  Fyrst um sinn er útgáfan einungis í boði fyrir þau fyrirtæki sem hafa gert leyfissamning við Microsoft, en Office 2010 verður gefið út á neytendamarkaði í næsta mánuði. Um leið er gert ráð fyrir að Office Web Apps, sem er vefútgáfa af öllum helstu Office-forritunum sem nota má án endurgjalds, verði í boði fyrir almenning.

  „Þetta er stór áfangi fyrir okkur, enda eru Office og SharePoint í hópi helstu flaggskipa Microsoft. Um þessar mundir leita viðskiptavinir okkar allra leiða til að hagræða í sínum rekstri og auka hagkvæmni. Því er sérstaklega ánægjulegt að segja frá því að ný rannsókn Forrester Consulting bendir til að innleiðing 2010 útgáfanna af Office, SharePoint og Exchange auk Office Communications Server 2007 R2 skili 301% arði af fjárfestingu (ROI) og borgi sig upp á rúmum 7 mánuðum. Hér eru því komnar lausnir sem virkilega skila árangri fyrir viðskiptavini okkar,“ segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi.

  Nánari upplýsingar veitir:
  Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, í síma 840 6902

 • Evrugengi Microsoft framlengt í síðasta sinn

  8. maí 2010

  Microsoft Íslandi hefur samið við höfuðstöðvar Microsoft um áframhald svokallaðs evrugengis Microsoft fram til júníloka á þessu ári. Hljóðar samkomulagið um að viðskipti Microsoft við íslensk fyrirtæki, stofnanir og almenning verði gerð á evrugenginu 150 krónum. Gert er ráð fyrir því að þetta verði síðasta framlenging evrugengisins og að frá 1. júlí muni viðskipti Microsoft aftur miðast við hefðbundið gengi krónunnar. Evrugengi Microsoft hefur verið við lýði í viðskiptum félagsins hér á landi frá því í desember 2008, en þessu fyrirkomulagi var komið á til að bregðast við algjöru frosti á hugbúnaðarmarkaðnum í kjölfar bankahrunsins og falls krónunnar.

  Evrugengisverkefni Microsoft hér á landi hefur heppnast framar vonum, því það kom viðskiptum þeirra fjölmörgu íslensku hugbúnaðarfyrirtækja sem starfa daglega við sölu, þróun og þjónustu Microsoft-lausna af stað á nýjan leik eftir hrunið og hefur jafnframt sparað íslensku efnahagslífi umtalsverðan gjaldeyriskostnað. Samkvæmt útreikningum Microsoft Íslandi nemur gjaldeyrissparnaðurinn um tveimur milljörðum króna frá því að evrugengi Microsoft var fyrst sett á laggirnar.

  Evrugengi Microsoft nálgast nú raungengi krónunnar, en miðað var við 145 krónur í viðskiptum Microsoft fyrstu þrjá mánuði ársins auk þess sem krónan hefur styrkst nokkuð að undanförnu. Fyrstu sjö mánuði verkefnisins var evrugengið 120 kr., á síðari helmingi ársins 2009 var það 130 kr. Evrugengi Microsoft er einstakt í sögu fyrirtækisins, því það hefur aldrei áður átt í viðskiptum við heila þjóð á öðru gengi en raungengi gjaldmiðils þess.

  „Í upphafi þessa verkefnis vonuðum við að hrun krónunnar væri einungis tímabundið og evrugengið myndi brúa bilið á meðan, sem hefur heppnast. Það er ánægjulegt að sjá gengi krónunnar styrkjast þótt hægt gangi, enda er æskilegra að efnahagslífið í heild sé heilbrigt heldur en að nota þurfi sértækar lausnir á borð við þessa. Við hjá Microsoft Íslandi erum himinlifandi með það hvernig til hefur tekist, því hugbúnaðargeirinn hefur haldið sjó síðustu misserin í erfiðu árferði, meðal annars vegna þessara aðgerða. Um leið hafa viðskiptavinir Microsoft getað nýtt evrugengið til að endurskipuleggja og endurnýja hugbúnaðarlausnir sínar þannig að þær skili auknu hagræði í rekstri til lengri tíma,“ segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi.

  Nánari upplýsingar veitir:
  Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, í síma 840 6902

 • Microsoft opnar fyrir prufuútgáfu Office 2010

  19. nóvember 2009

  Microsoft gaf í gær út prufuútgáfu, svokallaða beta-útgáfu, af Microsoft Office 2010 skrifstofuhugbúnaðinum. Allir sem áhuga hafa á að kynna sér næstu útgáfu Office geta því sótt prufuútgáfuna á slóðinni www.microsoft.com/2010. Þar sem Microsoft Office er mest notaði skrifstofuhugbúnaður í heimi má búast við að mikill áhugi verði meðal tölvuáhugafólks á að kynna sér það sem koma skal í forritum á borð við Word, Excel, PowerPoint og Outlook.

  Microsoft Office 2010 tekur við af Office 2007, sem innleiddi á sínum tíma byltingarkenndar breytingar á notendaskilum Office-hugbúnaðarins. Helstu nýjungar í næstu útgáfu Office eru auknir möguleikar í nýtingu Internetsins, t.d. til samvinnu notenda í skjölum. Um leið er lögð áhersla á að gera notkun Office í vefvöfrum, farsímum og smátækjum mögulega, þannig að notendur séu ekki bundnir við einkatölvuna þegar þeir vilja skoða eða vinna við Office-skjöl.

  Umtalsverðar breytingar verða gerðar á samskipta- og skipulagsforritinu Outlook, sem inniheldur m.a. nýjungar við skipulagningu tölvupósthólfs og möguleika á tengingu við samfélagsmiðla. Auk þess munu Office-forritin í auknum mæli geta unnið með og sýnt myndbönd og annað myndefni í nýju útgáfunni. Upplýsingar um fleiri nýjungar í Office 2010 má finna á vefslóðinni www.microsoft.com/office/2010.

  Með því að veita almenningi aðgang að beta-útgáfu Office 2010 beitir Microsoft sama vinnulagi og fyrirtækið notaði við þróun Windows 7. Alls tóku um átta milljónir notenda um heim allan þátt í beta-prófunum á Windows 7, sem er fjölmennasta slíka reynslukeyrsla hugbúnaðar í sögu tölvutækninnar. Það þýddi að hægt var að taka tillit til fjölda athugasemda almennra notenda og slípa hugbúnaðinn betur til áður en lokaútgáfan var gefin út.

  Auk beta-útgáfu Office 2010 gaf Microsoft einnig út í dag beta-útgáfur af hugbúnaðarlausnunum SharePoint Server 2010, Visio 2010, Project 2010 og Office Web Apps fyrir fyrirtæki. Útgáfudagur fullbúinnar útgáfu Microsoft Office 2010 hefur ekki verið tilkynntur, en gert er ráð fyrir að hún komi á markað á fyrri hluta næsta árs.

  Nánari upplýsingar veitir:
  Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, í síma 840 6902

 • Microsoft einfaldar tölvunotkun með Windows 7

  23. október 2009

  Windows 7, nýjasta stýrikerfi Microsoft, var gefið út þann 22. október. Grunnhugmyndin við hönnun stýrikerfisins var að gera alla tölvunotkun fólks auðveldari. Ný notendaskil og fjölmargir nýir eiginleikar létta notendum lífið fyrir framan tölvuskjáinn, hvort heldur við leik eða störf. Mikil áhersla er lögð á að stýrikerfið sé létt en samt öflugt, sem þýðir að það hentar tölvum af öllum stærðum og gerðum – allt frá ofurléttum fistölvum til stærstu borðtölva.

  Þróun Windows 7 var samvinnuverkefni Microsoft og almennra tölvunotenda frá upphafi. Hugbúnaðarhönnuðir Microsoft unnu með bæði viðskiptavinum og samstarfsaðilum að því að smíða stýrikerfi sem einfaldaði þeim dagleg störf. Átta milljónir tölvunotenda um allan heim tóku þátt í að prófa Windows 7 meðan stýrikerfið var enn í þróun, sem er fjölmennasta hugbúnaðarprófun af þessu tagi sem framkvæmd hefur verði frá upphafi.

  Tölvunotendur um allan heim eru einhuga um að vel hafi tekist til með Windows 7. Gagnrýnendur hafa gefið stýrikerfinu góða einkunn og almenningur er á sama máli miðað við viðbrögð eftir að Windows 7 kom á markað.

  Nánari upplýsingar um Windows 7 má nálgast á www.windows7.is og söluaðila á Íslandi má finna á www.w7.is. Taktu einnig þátt í Windows 7 samfélaginu með okkur á Facebook, Twitter og blogginu !

  Nánari upplýsingar veitir:
  Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, í síma 840 6902

 • Íslensk fyrirtæki fá aðgang að WebsiteSpark

  28. september 2009

  Microsoft hefur hleypt af stokkunum nýju verkefni, WebsiteSpark, sem miðar að því að aðstoða smærri vefhönnunarfyrirtæki og einyrkja í vefhönnun við að koma undir sig fótunum. WebsiteSpark veitir vefhönnunarfyrirtækjum með færri en tíu starfsmenn frían aðgang að öllum helstu vefþróunartólum og vefþjónum Microsoft og fylgir í kjölfar sambærilegra verkefna Microsoft, BizSpark og DreamSpark, sem hafa notið mikilla vinsælda hér heima og erlendis síðustu misseri.

  BizSpark, sem hleypt var af stokkunum fyrir tæpu ári, veitir sprotafyrirtækjum aðgang að öllum helstu þróunartólum Microsoft og DreamSpark, sem var innleitt hér á landi sl. vor, veitir nemum á framhalds- og háskólastigi sambærilegan aðgang. Þannig geta sprotafyrirtæki og háskólanemar nýtt sér öflugustu þróunarlausnir Microsoft sem völ er á óháð efnahag. Í kjölfar mikilla vinsælda BizSpark og DreamSpark varð ljóst að eftirspurn væri eftir sambærilegu verkefni sem væri sérhannað fyrir smærri fyrirtæki og einyrkja sem vinna við að hanna vefi fyrir þriðja aðila.

  Íslendingar hafa verið duglegir við að nýta sér kosti BizSpark og DreamSpark, en skemmst er að minnast þess að Ísland fékk sérstaka flýtimeðferð hjá Microsoft í alþjóðlegri útbreiðslu BizSpark í nóvember á síðasta ári í ljósi efnahagshrunsins hér á landi. Í þetta sinn þarf Ísland enga sérstaka flýtimeðferð, því landið fær aðgang að WebsiteSpark-verkefninu frá fyrsta degi.

  Því geta íslensk vefhönnunarfyrirtæki sem eru með innan við tíu starfsmenn nú skráð sig á vefnum websitespark.com og fengið samstundis aðgang að þróunartólum á borð við Microsoft Silverlight, Microsoft Expression og Microsoft Visual Studio 2008, auk vefþjónalausnanna Microsoft SQL Server 2008 og Windows Server 2008. Jafnframt fylgir aðgangur að víðtæku stuðningsneti Microsoft-samstarfsaðila sem nýta má m.a. til að leita nýrra viðskiptavina og þjálfa starfsfólk.

  „Þekkingariðnaðurinn er án efa sá vettvangur sem verður hvað mikilvægastur fyrir okkur þegar kemur að því að endurskipuleggja atvinnulíf á Íslandi á komandi árum. Því getur þessi stuðningur Microsoft við uppbyggingu í þekkingariðnaði skipt miklu, ekki bara fyrir þá sem eru að byrja að fóta sig í námi eða við stofnun fyrirtækja, heldur þjóðina í heild þegar fram í sækir. Íslendingar eru fljótir að grípa tækifæri á borð við þessi og það hefur verið frábært að fylgjast með þeim mikla áhuga sem íslensk sprotafyrirtæki og nemendur hafa sýnt á BizSpark og DreamSpark frá því þau voru sett á laggirnar. Ég hef fulla trú á að efnileg vefhönnunarfyrirtæki muni á sama hátt taka WebsiteSpark opnum örmum,“ segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi.

  Nánari upplýsingar veitir:
  Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, í síma 840 6902

 • Þróun Windows 7 á lokastigi

  30. apríl 2009

  Microsoft gaf í dag út Release Candidate-útgáfu (RC) af Windows 7, næstu kynslóð Windows-stýrikerfisins. Fyrstu dagana verður útgáfan einungis í boði fyrir tæknifólk í gegnum MSDN- og TechNet-hópa Microsoft, en frá og með 5. maí geta allir nálgast RC-útgáfuna í gegnum Windows 7 vef Microsoft. Þegar hugbúnaður er kominn í Release Candidate-útgáfu þýðir það jafnan að þróun sé á lokastigi.

  Microsoft gaf í janúar síðastliðinn út Beta-útgáfu Windows 7 og síðan þá hafa milljónir manna um heim allan tekið þátt í Beta-prófunum á stýrikerfinu. Reynsla þeirra og ábendingar hafa verið nýttar til fínstillinga og gert að verkum að nú er þróun Windows 7 komin á Release Candidate-stig. Þúsundir samstarfsaðila Microsoft geta því frá og með deginum í dag notað RC-útgáfuna til að þróa og prófa ný forrit, þjónustu og rekla þannig að þau séu tilbúin þegar lokaútgáfa Windows 7 kemur á markað.

  Mikið hefur verið fjallað um Windows 7 frá því að Beta-útgáfan var gefin út og hefur stýrikerfið fengið jákvæð viðbrögð frá bæði fjölmiðlum og tæknifólki. Þykir stýrikerfið öflugt, hraðvirkt og áreiðanlegt auk þess að bjóða upp á fjölda nýrra eiginleika sem nýtast bæði atvinnulífi og heimilisnotendum. Við hönnun Windows 7 var tekið mið af óskum notenda um að gera tölvunotkunina einfaldari og skilvirkari auk þess að bæta við ýmsum nýjungum.

  Góðar viðtökur við Beta-útgáfu Windows 7 hafa meðal annars birst í því að nú þegar hafa yfir 10.000 fyrirtæki sóst eftir að fá aðgang að þróunartólum Microsoft fyrir stýrikerfið. Jafnframt hafa margir af stærstu samstarfsaðilum fyrirtækisins á heimsvísu á borð við Corel, Cyberlink, Sonic, ATI og NVIDIA nú þegar lagt mikla vinnu í að þróa hugbúnað sinn þannig að hann nýti möguleika Windows 7 til fullnustu þegar stýrikerfið verður gefið út.

  „Þetta er spennandi áfangi fyrir Microsoft, enda þýðir þetta að nú styttist í að við getum sett á markað stýrikerfi sem án efa mun vekja mikla athygli bæði á fyrirtækjamarkaði og meðal almennings. Viðbrögðin sem við höfum fengið frá þeim sem hafa notað Beta-útgáfuna hafa verið mjög jákvæð og greinilegt að margir bíða spenntir eftir því að Windows 7 verði tilbúið,“ segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi.

  Microsoft hefur ekki tilkynnt hvenær Windows 7 verður sett á markað. Þangað til geta áhugasamir sótt Release Candidate-útgáfuna í gegnum MSDN eða Technet eða á Windows 7 vefnum frá og með 5. maí.

  Nánari upplýsingar veitir:
  Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, í síma 840 6902

 • Dreamspark-verkefni Microsoft innleitt á Íslandi

  2. apríl 2009

  Nemar við Háskóla Íslands geta frá og með 4. apríl fengið aðgang að öllum helstu þróunartólum Microsoft án endurgjalds. Nemar við aðra íslenska skóla á háskólastigi og framhaldsskólanemar yfir 18 ára aldri munu á næstunni fá sama aðgang. Þetta er liður í verkefninu Dreamspark, sem er alþjóðlegt átaksverkefni Microsoft sem miðar að því að veita námsfólki sem bestan aðgang að tólum til hugbúnaðarþróunar án tillits til efnahags.

  Meðal þeirra hugbúnaðarlausna sem íslenskir nemar fá aðgang að eru Visual Studio, Windows Server, SQL Server Developer, Robotics Developer Studio og Xna Game Studio, en alls eru 16 hugbúnaðarlausnir í boði á vefnum Dreamspark.com. Flestar nýtast þær aðallega í raungreina- og tölvunarfræðinámi, en allir nemar fá aðgang að þeim og geta til að mynda notað XNA Game Studio til að þróa sína eigin tölvuleiki. Bill Gates, stofnandi Microsoft, hleypti Dreamspark af stokkunum fyrir rúmu ári og hafa nemendur um heim allan nýtt sér verkefnið til að sækja hugbúnað í milljónum eintaka.

  „Það er dýrmætt fyrir nemendur að fá ótakmarkaðan aðgang að öllum þróunartólum Microsoft. Microsoft hugbúnaður er útbreiddur í atvinnulífinu og meðal almennings og því mun það án efa nýtast mörgum við nám og síðar störf að þekkja þróunartólin. Aukin færni nemenda á þessu sviði mun svo skila sér í samkeppnishæfara atvinnulífi til framtíðar,“ segir Ebba Þóra Hvannberg, prófessor í tölvunarfræði við Háskóla Íslands.

  Það er m.a. innleiðing danska auðkennikerfisins WAYF (Where Are You From) sem gerir það kleift að veita íslenskum nemendum aðgang að Dreamspark. WAYF er verkefni á vegum danska ríkisins sem gengur út á að tengja menntastofnanir og utanaðkomandi þjónustu, þannig að t.d. nemendur geti á öruggan hátt notað notendanöfn sín við skóla til að skrá sig í þjónustu hjá þriðja aðila. Háskóli Íslands hefur innleitt WAYF og undirbúa fleiri skólar hér á landi nú innleiðingu þess.

  Þann 4. apríl næstkomandi verður Íslandi bætt við landalista vefsins Dreamspark.com. Þá geta nemar við HÍ notað notandanafn sitt og lykilorð við HÍ til að votta að þeir séu í námi. Að því loknu geta þeir sótt allan þann hugbúnað sem þar er í boði. Hugbúnaðinn má síðan nota svo lengi sem nemandinn er skráður í skólann, en staðfesta þarf námsvistina árlega.

  „Það er mikið ánægjuefni fyrir Microsoft Íslandi að geta boðið Dreamspark hér á landi. Íslenskir nemendur fá nú óheftan aðgang að öflugustu þróunartólum Microsoft og geta þannig strax í námi sínu lagt grunninn að frumkvöðlastarfi framtíðarinnar. Þekkingariðnaðurinn verður án efa í fararbroddi atvinnuuppbyggingar á heimsvísu á næstu árum og er mikilvægt að íslenskir nemendur hafi tækin, tólin og þekkinguna til að sú uppbygging verði sem mest hér á landi. Við lítum á þetta sem mikilvæga viðbót við framlag okkar til uppbyggingar á íslensku atvinnulífi og vonumst við til að Dreamspark muni mælast jafn vel fyrir og fastgengi krónunnar í Microsoft-viðskiptum, innleiðing Bizspark og efling símenntunar meðal íslensks tæknifólks,“ segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi.

  Dreamspark er byggt upp á svipaðan hátt og Bizspark-verkefni Microsoft, en það miðar að því að aðstoða sprotafyrirtæki í hugbúnaðargeiranum við að koma undir sig fótunum. Með Bizspark fá sprotafyrirtæki einnig aðgang að helstu þróunartólum Microsoft án endurgjalds til tveggja ára. Bizspark var hleypt af stokkunum hér á landi í nóvember síðastliðnum og hafa þegar fjölmörg íslensk sprotafyrirtæki nýtt sér Bizspark við þróunarstörf sín.

  Nánari upplýsingar veitir:
  Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, í síma 840 6902

 • Það besta frá TechEd og Convergence 2008 - Metþátttaka á Microsoft ráðstefnu

  30. janúar 2009

  Metþátttaka var á ráðstefnunni „Það besta frá TechEd & Convergence“ sem haldin var á vegum Microsoft Íslandi á Grand Hótel Reykjavík í síðustu viku. Gestir voru 850 talsins, sem gerir ráðstefnuna að fjölmennustu ráðstefnu sem haldin hefur verið í upplýsingatækni á Íslandi.

  Þetta var í fyrsta sinn sem Microsoft Íslandi heldur ráðstefnu af þessu tagi en ákveðið var að efna til hennar til að bregðast við hruni á ráðstefnuferðum íslensks tæknifólks til útlanda á síðasta ári. Símenntun starfsfólks í upplýsingatækni er afar mikilvæg enda eru breytingar örar í tækniheiminum og mikilvægt að fylgjast með því nýjasta hverju sinni.

  Viðbrögðin létu ekki á sér standa og fjölmenntu íslenskir tæknimenn, forritarar og stjórnendur á fjölbreytta fyrirlestra um það nýjasta hjá Microsoft og samstarfsaðilum. Vinsælastur var fyrirlestur um Windows 7, næsta stýrikerfi Microsoft, og Windows Server 2008 R2, næstu útgáfu af netþjóni Microsoft. Jafnframt vöktu fyrirlestrar Miha Kralj, eins helsta fyrirlesara Microsoft á heimsvísu, mikla athygli. Hann fjallaði m.a. um hvernig búast megi við að tækniþróunin verði næstu 10 árin auk þess að frumflytja fyrirlestur sem saminn er fyrir ráðstefnu í Bandaríkjunum sem haldin verður í febrúar.

  Aðgangur að ráðstefnunni var ókeypis til að veita öllum aðgang óháð fjárhag eða stöðu á vinnumarkaði og því bar Microsoft Íslandi allan kostnað af viðburðinum. Gestir voru leystir út með Windows Home Server netþjóninum fyrri daginn og beta-útgáfu Windows 7 seinni daginn, við mikla ánægju ráðstefnugesta.

  „Við erum í skýjunum með hvernig til tókst. Mætingin var frábær og greinilega mikil þörf meðal íslensks tæknifólks á að fá það nýjasta í bransanum beint í æð frá toppfólki á alþjóðlegum vettvangi. Fyrirlesararnir sem komu hingað höfðu á orði að sjaldan hefðu þeir orðið varir við jafn mikinn áhuga hjá ráðstefnugestum og viljum við þakka öllum sem komu fyrir ánægjuleg samskipti. Við hjá Microsoft Íslandi munum áfram leggja okkar af mörkum við að aðstoða íslenska upplýsingatæknigeirann á meðan á yfirstandandi þrengingaskeiði stendur, enda trúum við því að ef rétt er að málum staðið geti upplýsingatæknin orðið ný meginstoð í íslensku efnahagslífi á komandi árum,“ segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi.

  Nánari upplýsingar veitir:
  Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, í síma 840 6902

 • Það besta frá TechEd og Convergence 2008 - Metþátttaka á Microsoft ráðstefnu

  30. janúar 2009

  Metþátttaka var á ráðstefnunni „Það besta frá TechEd & Convergence“ sem haldin var á vegum Microsoft Íslandi á Grand Hótel Reykjavík í síðustu viku. Gestir voru 850 talsins, sem gerir ráðstefnuna að fjölmennustu ráðstefnu sem haldin hefur verið í upplýsingatækni á Íslandi.

  Þetta var í fyrsta sinn sem Microsoft Íslandi heldur ráðstefnu af þessu tagi en ákveðið var að efna til hennar til að bregðast við hruni á ráðstefnuferðum íslensks tæknifólks til útlanda á síðasta ári. Símenntun starfsfólks í upplýsingatækni er afar mikilvæg enda eru breytingar örar í tækniheiminum og mikilvægt að fylgjast með því nýjasta hverju sinni.

  Viðbrögðin létu ekki á sér standa og fjölmenntu íslenskir tæknimenn, forritarar og stjórnendur á fjölbreytta fyrirlestra um það nýjasta hjá Microsoft og samstarfsaðilum. Vinsælastur var fyrirlestur um Windows 7, næsta stýrikerfi Microsoft, og Windows Server 2008 R2, næstu útgáfu af netþjóni Microsoft. Jafnframt vöktu fyrirlestrar Miha Kralj, eins helsta fyrirlesara Microsoft á heimsvísu, mikla athygli. Hann fjallaði m.a. um hvernig búast megi við að tækniþróunin verði næstu 10 árin auk þess að frumflytja fyrirlestur sem saminn er fyrir ráðstefnu í Bandaríkjunum sem haldin verður í febrúar.

  Aðgangur að ráðstefnunni var ókeypis til að veita öllum aðgang óháð fjárhag eða stöðu á vinnumarkaði og því bar Microsoft Íslandi allan kostnað af viðburðinum. Gestir voru leystir út með Windows Home Server netþjóninum fyrri daginn og beta-útgáfu Windows 7 seinni daginn, við mikla ánægju ráðstefnugesta.

  „Við erum í skýjunum með hvernig til tókst. Mætingin var frábær og greinilega mikil þörf meðal íslensks tæknifólks á að fá það nýjasta í bransanum beint í æð frá toppfólki á alþjóðlegum vettvangi. Fyrirlesararnir sem komu hingað höfðu á orði að sjaldan hefðu þeir orðið varir við jafn mikinn áhuga hjá ráðstefnugestum og viljum við þakka öllum sem komu fyrir ánægjuleg samskipti. Við hjá Microsoft Íslandi munum áfram leggja okkar af mörkum við að aðstoða íslenska upplýsingatæknigeirann á meðan á yfirstandandi þrengingaskeiði stendur, enda trúum við því að ef rétt er að málum staðið geti upplýsingatæknin orðið ný meginstoð í íslensku efnahagslífi á komandi árum,“ segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi.

  Hér má finna myndir frá viðburðinum.

  Nánari upplýsingar veitir:
  Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, í síma 840 6902

 • Microsoft gefur út Beta-útgáfu Windows 7

  12. janúar 2009

  Síðustu ár hafa notendur beðið Microsoft um ákveðnar breytingar á Windows. Við hlustuðum og erum nú tilbúin til að leyfa áhugasömum að prófa þróunarútgáfu stýrikerfisins.

  Windows 7 er hraðvirkari, áreiðanlegri og gerir alla tölvuvinnu einfaldari. Hvort sem það er að halda utan um tónlist eða myndbönd, fá betri yfirsýn og stjórn yfir forritunum sem eru opin hverju sinni eða hreinlega að kveikja og slökkva á tölvunni á sem stystum tíma; þá höfum við tekið á því í Windows 7. Sjón er sögu ríkari – smellið hér til að sjá vídeó sem sýna helstu nýjungar sem þróaðar hafa verið í Windows 7.

  Á Windows 7 vefnum er hægt að kynna sér allar helstu breytingarnar sem væntanlegar eru í næsta stýrikerfi Microsoft. Þar hefur nú verið gefin út Beta-útgáfa af Windows 7 sem er opin fyrir alla sem áhuga hafa á að prófa stýrikerfið. Fyrstu viðbrögð hafa verið afar jákvæð eins og sjá má til dæmis hér: http://www.techreviewsource.com/content/view/227/1/

  Munið þó að þetta er ekki lokaútgáfa og beta-prófarar þurfa alltaf að vera viðbúnir því að einhver vandamál gætu komið upp. Því er nauðsynlegt að lesa öll tilmæli og ábendingar vel áður en lagt er í uppsetninguna.

 • Farandtölva frá EJS og Microsoft gerir íslensku að aðalmáli menntamálaráðherra

  22. nóvember 2008

  Á ráðstefnu sem haldin var í tilefni af Degi íslenskrar tungu 16. nóvember síðastliðinn afhentu Microsoft og EJS Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur menntamálaráðherra farandtölvu sem verður hér eftir tákn þess að íslenska skuli vera aðalmálið á tölvum Íslendinga. Tölvan sem er Dell fartölva, gerir menntamálaráðherra hér eftir kleift að hafa stýrikerfi og annan hugbúnað á íslensku og kynna íslenska þýðingu hugbúnaðarins hvar sem ráðherra kemur í daglegum erindagjörðum.

  Þýðingar á Windows og öðrum Microsoft-hugbúnaði hófust fyrir u.þ.b. áratug fyrir tilstilli Björns Bjarnasonar, þáverandi menntamálaráðherra. Síðustu ár hefur Microsoft tekið við kyndlinum og staðið fyrir þýðingu Windows og Office. Fyrirtækið hefur jafnframt gefið loforð um að þýðingum nýrra útgáfa hugbúnaðarins verði haldið áfram. Halldór þakkaði þáverandi menntamálaráðherra fyrir frumkvæði að þýðingunum á sínum tíma og núverandi menntamálaráðherra fyrir góðan vilja til að innleiða íslenskuna sem víðast.

  Farandtölva menntamálaráðherra er gjöf EJS og Microsoft og munu fyrirtækin sjá um uppfærslur og viðhald tölvunnar. Henni er ætlað að fylgja embættinu mann fram af manni sem tákn um mikilvægi þess að íslenskan sé ávallt aðalmálið í leik og starfi Íslendinga.

  Nánari upplýsingar veitir:
  Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, í síma 840 6902

 • Microsoft Íslandi veitir Skjali sérstaka viðurkenningu á Degi íslenskrar tungu

  21. nóvember 2008

  Á Degi íslenskrar tungu sem haldinn var 16. nóvember síðastliðinn veitti Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, starfsmönnum þýðingastofunnar Skjals sérstaka viðurkenningu Microsoft fyrir mikilvægt framlag þeirra við íslenska þýðingu á hugbúnaði og tæknilausnum.

  Við afhendingu viðurkenningarinnar lagði Halldór áherslu á mikilvægi þess að byggja upp þekkingu, reynslu og ekki síst hefð fyrir því að tæknibúnaður og tæknilausnir séu þýddar á íslensku. „Þýðingar á þessu sviði eru nauðsynlegar til að halda tungumálinu lifandi á tímum örrar tækniþróunar. Ef við sofnum á verðinum og freistumst til að nota annað tungumál þegar kemur að tæknimálum er hætta á að íslenskan þynnist smám saman út á næstu árum og áratugum,“ sagði Halldór.

  Auk þess að þýða nýjustu útgáfur Windows stýrikerfisins og Office hugbúnaðarins frá Microsoft, sem gefnar voru út síðastliðið sumar, hefur Skjal jafnframt þýtt ýmsar aðrar hugbúnaðarlausnir á vegum Microsoft, eins og til að mynda Microsoft Dynamics viðskiptahugbúnaðinn, farsímalausnir og annan tæknibúnað.

  „Skjal hefur unnið frábært starf og eru starfsmenn þess vel að þessari viðurkenningu komnir. Þýðing hugbúnaðar á borð við Windows og Office er ekki bara vandasamt verk, heldur líka afar yfirgripsmikið og því afar mikilvægt að fagmannlega sé að því staðið. Skjal hefur staðist allar okkar væntingar í þeim efnum,“ sagði Halldór.

 • Microsoft veitir sprotafyrirtækjum hugbúnað og aðstoð án endurgjalds

  14. nóvember 2008

  BizSpark, nýju átaksverkefni Microsoft sem miðar að því að aðstoða sprotafyrirtæki í hugbúnaðargeiranum við að koma undir sig fótunum, verður formlega hleypt af stokkunum á Íslandi í dag. Sprotafyrirtæki sem skrá sig í BizSpark fá frían aðgang að fjölbreyttu úrvali Microsoft-hugbúnaðar, þar á meðal öllum helstu þróunartólum Microsoft og í framtíðinni tölvuskýinu Azure, fá stuðning frá samstarfsaðilum Microsoft og aðgang að tengslaneti BizSpark, þar sem finna má mögulega fjárfesta, viðskiptavini og samstarfsaðila um allan heim.

  Microsoft svipti hulunni af BizSpark þann 5. nóvember og hefur verkefnið vakið umtalsverða athygli á alþjóðavettvangi. Upphaflega var aðgangur að verkefninu einungis í boði fyrir fyrirtæki á stærstu markaðssvæðum Microsoft og ekki ljóst hvenær Íslandi yrði bætt í hópinn. Óformlegar umsóknir frá íslenskum sprotafyrirtækjum hófu engu að síður að streyma inn til Microsoft Íslandi frá fyrsta degi. Í ljósi erfiðra aðstæðna í atvinnulífi hér á landi og stóraukins áhuga á nýsköpun lagði Microsoft Íslandi því hart að höfuðstöðvum Microsoft að veita flýtimeðferð þannig að hægt yrði að gangsetja BizSpark á Íslandi eins fljótt og kostur væri. Það bar árangur og geta því íslensk sprotafyrirtæki í hugbúnaðargeiranum sótt formlega um aðgang að BizSpark frá og með deginum í dag.

  Eitt lykilatriðanna við að starfrækja BizSpark er að innlendir samstarfsaðilar Microsoft gangi til liðs við verkefnið. Þeir sjá um að skrá sprotafyrirtæki í BizSpark, aðstoða þau við að nýta sér kosti verkefnisins og veita aðra almenna aðstoð og ráðgjöf við rekstur sprotafyrirtækjanna. Nú þegar hafa verið skráðir tveir BizSpark samstarfsaðilar á Íslandi, fjárfestingarsjóðurinn Frumtak og Samtök upplýsingatæknifyrirtækja – SUT – fyrir hönd Samtaka iðnaðarins. Fleiri fyrirtæki og stofnanir sem starfa við nýsköpun og aðstoð við sprotafyrirtæki hafa lýst áhuga á að bætast í hóp samstarfsaðila á næstunni.

  „Það hefur verið ævintýralegt að taka þátt í að koma þessu verkefni af stað á Íslandi. Viðtökurnar hafa alls staðar verið framar vonum, sem gerir það að verkum að við getum formlega opnað BizSpark á Íslandi einungis örfáum dögum eftir að það var sett af stað á alþjóðamarkaði. Höfuðstöðvar Microsoft hafa sýnt okkur mikinn skilning í ljósi aðstæðna og hraðað öllum sínum ferlum í okkar þágu, þeir sem við leituðum til um að verða samstarfsaðilar hafa allir tekið okkur fagnandi og ekki síst hefur áhugi íslenskra sprotafyrirtækja frá fyrsta degi hvatt okkur til dáða. Ég er stoltur af því að þetta sé orðið að veruleika og sannfærður um að þetta mun á komandi misserum reynast mörgum íslenskum fyrirtækjum lyftistöng í erfiðu árferði,“ segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi.

  „Samtök iðnaðarins og Samtök upplýsingatæknifyrirtækja eru mjög ánægð með að geta boðið sprotafyrirtækjum sínum aðgang að BizSpark samningnum við Microsoft. Samtökin telja engan vafa á að samningurinn geti skipt miklu máli fyrir fyrirtækin, ekki síst eins og staðan er nú í íslensku atvinnulífi. SI og SUT vilja þakka Microsoft Íslandi fyrir skjót viðbrögð við að gangsetja BizSpark á Íslandi,“ segir Haraldur Dean Nelson, forstöðumaður upplýsingatæknisviðs SI.

  „Frumtak fjárfestir í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og kappkostar að eiga gott samstarf við öll slík fyrirtæki. Þess vegna er þetta framtak Microsoft vel þegið og hjálpar á þessum síðustu og verstu tímum. Miklu skiptir að létta þessum fyrirtækjum róðurinn, sem er mjög erfiður á fyrstu árum þeirra. Við hlökkum til samstarfsins við Microsoft og væntum mikils af því," segir Eggert Claessen, framkvæmdastjóri Frumtaks.

  Skilyrði sem fyrirtæki þurfa að uppfylla til að vera gjaldgeng í BizSpark er að þau starfi við hugbúnaðarhönnun af einhverju tagi, séu einkarekin, hafi verið starfrækt skemur en í þrjú ár og velti innan við einni milljón bandaríkjadala (u.þ.b. 130 milljónum króna) á ári. Nánari upplýsingar um verkefnið má finna á www.microsoft.com/bizspark

  Nánari upplýsingar veitir:
  Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, í síma 840 6902

 • Vodafone á Íslandi hlýtur alþjóðleg verðlaun frá Microsoft

  12. nóvember 2008

  Íslenska símafyrirtækið Vodafone er meðal tólf evrópskra fyrirtækja sem hljóta verðlaun á Convergence-ráðstefnu Microsoft sem haldin verður í Kaupmannahöfn í næstu viku. Vodafone hlýtur verðlaunin fyrir nýsköpun og hugvitssamlega nýtingu Microsoft-lausna sem skilað hafa góðum árangri við rekstur fyrirtækisins. Það voru íslensku upplýsingatæknifyrirtækin PerSight, Applicon og Kögun sem sáu um innleiðingu lausnanna

  Meðal þess sem vakti athygli Microsoft var hvernig Vodafone og samstarfsaðilar þróuðu og útvíkkuðu möguleika viðskiptatengslakerfisins Microsoft Dynamics CRM. Kerfið var hannað til að sækja mikilvægar upplýsingar um viðskiptavini úr 18 mismunandi tölvukerfum og birta þjónustufulltrúum á einum stað. Þannig varð Microsoft Dynamics CRM að nokkurs konar miðpunkti upplýsingatæknikerfis Vodafone, sem einfaldaði starfsemi fyrirtækisins og skapaði ný tækifæri. Með innleiðingunni tókst til að mynda að auka sölu um 20% og bæta jafnframt þjónustu við viðskiptavini. Í kjölfarið hefur Vodafone á Íslandi náð besta árangri allra Vodafone-fyrirtækja á heimsvísu þegar ánægja viðskiptavina er mæld.

  Convergence-ráðstefnan í Evrópu er stærsti viðburðurinn ár hvert sem haldinn á sviði Microsoft Dynamics, viðskiptahugbúnaðar Microsoft. Mikil samkeppni er meðal samstarfsaðila Microsoft og viðskiptavina þeirra um að komast í hóp verðlaunahafa ráðstefnunnar. Sem dæmi má nefna að einungis tveir aðrir verðlaunahafar koma frá Norðurlöndunum þetta árið og því er árangur Vodafone, PerSight, Applicon og Kögunar afar athyglisverður.

  „Við hjá Microsoft Íslandi óskum Vodafone, PerSight, Applicon og Kögun innilega til hamingju með þennan frábæra árangur. Það er oft talað um að hægt sé að hagræða með upplýsingatækni en hér höfum við gott dæmi um það hvernig réttu lausnirnar geta líka aukið sölu og bætt þjónustu. Það skiptir að sjálfsögðu ekki síður máli í hörðu samkeppnisumhverfi. Þessi verðlaun eru jafnframt enn ein staðfestingin á því hve framarlega íslensk upplýsingatæknifyrirtæki standa í alþjóðlegum samanburði sem er afar jákvætt í því erfiða árferði sem við glímum við nú,“ segir Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi.

  „Í þessum verðlaunum felst ómæld viðurkenning fyrir starfsfólk Vodafone á Íslandi og samstarfsaðila okkar. Við erum afar stolt af því að vera í hópi örfárra evrópskra fyrirtækja sem hljóta þessi alþjóðlegu verðlaun frá Microsoft og þau hvetja okkur til að gera enn betur. Verkefnið sem hér um ræðir hefur verið umfangsmikið og margir hafa lagt hönd á plóginn. Niðurstaðan er sú að við höfum þróað gott verkfæri sem gerir okkar daglegu störf markvissari og viðskiptavinina ánægðari. Við munum þróa lausnina áfram, enda eru möguleikarnir óþrjótandi og enn eru ónýtt tækifæri til að tryggja viðskiptavinum enn betri þjónustu,” segir Gestur G. Gestsson, framkvæmdastjóri tæknisviðs Vodafone á Íslandi.

  Nánari upplýsingar veitir:
  Halldór Jörgensson, framkvæmdastjóri Microsoft Íslandi, í síma 840 6902